Hér að neðan er tilkynning sem er beint af vef HRFÍ:
Áríðandi vegna frestunar augnskoðunar í maí og svigrúm vegna vottorða
22/4/2020 Heimsfaraldurinn hefur ekki farið framhjá neinum og hefur hann haft áhrif á starf félagsins. Félagið getur vegna faraldursins ekki staðið fyrir augnskoðun sem fyrirhuguð var 14.-16. maí næstkomandi. Áætlað er að hafa augnskoðun 3.-5. september og stendur til að fá tvo augnlækna í stað eins og mun skoðun einnig framkvæmd á Akureyri, þar sem skoðun þar fellur niður í maí.
Í ljósi aðstæðna ákvað stjórn að veita ræktendum ákveðið svigrúm er varðar augnvottorð. Telur stjórn ekki hægt að krefjast augnskoðunar að viðlagðri kæru til siðanefndar á þeim tíma sem ekki er hægt að bjóða uppá augnskoðun. Séu undaneldisdýr notuð til ræktunar án þess að þau hafi verið augnskoðuð eða með of gamalt augnvottorð verða ættbækur engu að síður gefnar út og ekki verður send inn kæra til siðanefndar. Það er fortakslaust skilyrði að ræktandi mæti strax með dýrið í næstu augnskoðun sem félagið mun standa fyrir. Mæti dýrið ekki verður án tafar málið sent til meðferðar siðanefndar auk þess sem afkvæmin verða sjálfkrafa sett í ræktunarbann. Svigrúmið gildir um þau got þar sem pörun átti sér stað eftir síðustu augnskoðun félagsins sem haldin var 6.-7. febrúar síðast liðinn.
Stjórn vill árétta að ræktun án heilbrigðisskoðana er alfarið á ábyrgð ræktenda sjálfra og treystir þvi að ræktendur sýni áfram sem hingað til ábyrgð í ræktun og hafi í heiðri velferð og heilbrigði dýranna.
hér er linkur á fréttina http://www.hrfi.is/freacutettir/ariandi-vegna-frestunar-augnskounar-i-mai-og-svigrum-vegna-vottora?fbclid=IwAR1ujWKz6AA-nrD9gkTEMNUJY9JRJnZyfn9aWp82XA0vGFsU7m6pNyQ8oeU
Stjórn Retrieverdeildar fagnar þessu innleggi frá stjórn HRFÍ um leið og við áréttum við ykkur kæru ræktendur að ábyrgðin á ræktun er alltaf í ykkar höndum. Það er ábyrgðarhlutur að standa að ræktun og vitum við að enginn í okkar röðum vill stuðla að því að sýktir einstaklingar verði til. Gangi ykkur vel.