ÁRAMÓT

Frábært hundaár að renna sitt skeið. Deildin og félagar hennar stóðu að skemmtilegu ári með fjölbreyttu starfi. Deildarviðburður var hápunktur eins og oft áður, hann var þó aðeins frábrugðinn þar sem ekki var erlendur dómari á veiðiprófinu og í stað tveggja veiðiprófa var eitt á sunnudeginum. Vidar Grundetjern frá Noregi dæmdi sýninguna og var hún vel sótt og fór vel fram. Sigurmon M. Hreinsson dæmdi veiðiprófið á sunnudeginum. Að vanda var stigahæsti hundur helgarinnar sæmdur Hólabergsbikarnum og að þessu sinni hlaut Svava Guðjónsdóttir bikarinn með ISCH Dewmist Glitter´N Glance. Veiðprófin voru að mestu hefðbundin þó var sú nýbreytin að erlendur dómari dæmdi tvö próf við Melgerðismela í Eyjafirði. Aðsókn að prófum var með ágætum þó þurfti að fella niður eitt próf. Í ár stóð deildin fyrir Hlýðniprófum í fyrsta sinn og voru 3 próf á dagskrá. Þessi nýbreytni mæltist vel fyrir og var þátttaka góð.

Nú eru 4 próf í áætlun fyrir næsta ár. Veiðinefnd stóð fyrir opnu húsi með æfingum, spjalli og fróðleik nokkrar helgar seinnihluta vetrar og í vor. Aðsókn var misjöfn engu að síður mikilvægt innlegg í starfið og verður þessu starfi haldið áfram á einhvern hátt. Skemmti og göngunefnd hefur staðið að sýningarþjálfunum fyrir sýningar HRFÍ og deildarsýningu. Þetta er mjög mikilvægur þáttur í starfinu og ekki sýst til að aðstoða nýliða við að tengjast starfinu. Sýningarnefnd hefur nú komið að þessu verkefni með Skemmti og göngunefnd. Sýningar HRFÍ og deildarviðburður voru nú sem fyrr helsti vettvangur retriever eigenda til að koma saman. HRFÍ stóð fyrir 5 sýningum og deildin einni.

Nú sem fyrr voru retriever eigendur öflugir að mæta á sýningar og virkir þátttakendur í starfinu. Talsvert hefur verið flutt inn af retrieverhundum í ár bæði til frambúðar og að láni í stuttan tíma. Eins hefur verið flutt inn sæði. Þetta er mikilvægt innlegg í ræktun og má með sanni segja að mikið hafi verið í boði af hvolpum. Við horfum nú bjartsýn inn í nýtt ár með nýjum tækifærum og áskorunum. Sýningardagskrá HRFÍ er klár, eins eru veiði og hlýðnipróf á vegum deildarinnar klár ásamt deildarviðburði. Næsti viðburður á vegum deildarinnar verður heiðrun stigahæstu hunda 2016 á sýningum og veiðiprófum 21 janúar n.k. í Síðumúlanum, tími og frekari dagskrá verður auglýst síðar.

Efnt verður til veiðinámskeiðs og fenginn virtur þjálfari frá Noregi, nánari útfærsla og kynning verður á næstu vikum. Stjórn deildarinnar þakkar fyrir gott ár og samstarf á liðnu ári og óskar ykkur gleðilegs og gæfuríks komandi árs.