Núna þegar vorið kemur með lengri dögum og björtum kvöldum styttist í uppáhaldstímann til að njóta samveru með retrieverhundunum okkar.
Það er misjafnt hvað við viljum fá út úr okkar samveru með hundunum, þó er ég sannfærður um að allir hafi sömu væntingar til að hundunum líði vel og njóti sín í samvistum við okkur.
Viðburðir á vegum deildarinnar og HRFÍ eru bara lítill hluti af því sem félagsmenn njóta með sínum hundum og óska ég þess að allir megi eiga góða og innihaldsríka tíma með sínum hundum á sínum og þeirra forsendum.
Engu að síður eru viðburðir deildarinnar og HRFÍ miðpunktur í hundalífi okkar margra og er ánægjulegt að fylgjast með þessum mikla áhuga.
Sýningar á vegum HRFÍ eru núna orðnar 6 í allt á hverju ári og meðal annars tvær tvöfaldar sýningar yfir sumarið. Þessar sýningar allar hafa í gegnum árin verið afar vel sóttar af eigendum retriever og venjulega eru 11-12% af þáttakendum retriever. Þessar sýningar eru ótrúlega skemmtilegur viðburður fyrir hundaáhugafólk þar sem það kemur saman og sameinast um áhuga sinn á hundum af hinum ýmsu tegundum og tegundarhópum. Þetta er frábær staður fyrir fólk sem hefur áhuga á að kynnast starfi og möguleikum í hundasamfélagi að kynnast öðrum og gefa af sér í þessu samfélagi.
Retrieverdeildin hefur sínar skildur innan HRFÍ og þarf að koma að sumum þessara sýninga og er það mjög mikilvægt að vel til takist að sinna því starfi, hvet ég ykkur til að bjóða fram krafta ykkar. Eins eru störf innan sýninga sem er mikilvægt að sé sinnt eins og hringstjórn og ritun. HRFÍ hefur staðið að námskeiðum í þessum störfum og þarna er sannarlega komin þörf á að bæta í. Hvet ég ykkur sem hafið áhuga á, að kynna ykkur þetta og gefa ykkur í þessi störf. Að starfa svona náið í hring gefur ykkur alveg nýja og skarpari sýn á starf dómara og mat á hundunum. Að því gefnu að þið hafið áhuga á sýningum og takið þátt er þetta vettvangur sem ég hvet ykkur til að skoða að taka þátt í.
Retrieverdeildin hefur haldið veglega deildarsýningu undanfarin ár og svo verður einnig að þessu sinni. Þetta árið verður deildarsýning haldin 28.september og hún verður haldin inni, líklega í Blíðubakkahúsinu. Ákveðið var að breyta til þetta árið og sleppa sumarsýningu, einkum vegna þess hvað mikið álag er yfir sumarið með 4 sýningum HRFÍ. Bæði til að hvíla þátttakendur og starfsfólk. Dómari verður Gerda Groenweg frá Hollandi, hún ræktar Labrador Retriever undir nafninu Of the Barking Voices og sýnir og veiðiþjálfar sína Labrador hunda. Hún hefur réttindi til að dæma alla Retrievertegundirnar og hefur lagt sig fram um að kynna sér sérkenni Retrievertegundanna frá öllum hliðum. Upplýsingar um ræktun Gerda er hægt að finna á www.barkingvoices.com. Er það von okkar að aðsókn verði með besta móti og þessi dagur verði sannur retriever dagur. Sýningarnefnd mun kynna betur fyrirkomulag sýningar þegar nær dregur. Opnað verður fyrir skráningu hjá HRFÍ á næstunni og stefnt er að því að nýta skráningarkerfið frá Danmörku eins og á síðustu sýningum HRFÍ.
Sýningarþjálfanir verða eins og áður fyrir allar sýningar og vona ég að þær verði sem fyrr vel sóttar og hvet ykkur sem hafið kost á að aðstoða við þjálfun þar sem þetta mæðir oft á fáum.
Sumarstarf deildarinnar er að hefjast á fullu um þessar mundir. Þar bera hæst veiðipróf sem verða 13 í ár og að auki 2 vinnupróf og meistarakeppni. Dagskrána má sjá hér. Nú í ár verður möguleiki að ná í nafnbætur á hundana í öllum flokkum og eru reglur um það að finna á heimasíðu deildarinnar hér. þessi nafnbók kemur í ættbók hundsins og er möguleiki að fá nafnbót í öllum flokkum.
Í ár verður einnig boðið uppá vinnu- og veiðinámskeið á vegum deildarinnar sem haldið verður 6. og 7. júlí. Kennari verður Heidi Kvan frá Noregi og Bjarne Holm verður henni til aðstoðar. Sigrún Guðlaugardóttir og Gunnar Örn Arnarsson sjá um þetta fyrir hönd deildarinnar. Er það von okkar að með innleggi sem þessu aukum við áhuga félagsmanna á að vinna með hundunum og er það stefna stjórnar að bjóða uppá námskeið af einhverjum toga helst á hverju ári.
Það er ánægjulegt að segja frá því að starfið hefur risið talsvert upp nú seinnipart veturs og með vorinu. Öflugir æfingarhópar komnir af stað til að standa saman að þjálfun. Öflugir ræktendur með áhuga á vinnu með hundum hafa staðið að námskeiðum og jafnvel verið með þau opin og eða verið að styðja aðra ræktendur á þessari vegferð. Það má finna einhvern við æfingar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins nær öll kvöld og um helgar.
Stjórn HRFÍ stóð að fulltrúaráðsfundi núna í vikunni og sótti ég hann ásamt Sunnu Birnu sem er í stjórn. Það var mjög áhugavert að heyra hvað mikið er verið að vinna fyrir okkur á hinum ýmsu stöðum. Það er mikilvægt að hafa í huga að HRFÍ sem er bakhjarl okkar í því starfi sem við sinnum er aðili að alþjóðastarfi og þar eru stórir klúbbar og grunnsamtök eins og FCI að uppfæra og aðlaga reglur, lög og vinnulag reglulega og aðlaga að breyttum tímum og væntingum. Að uppfæra og fylgja eftir svona hlutum t.d. í litlu áhugamannfélagi kallar á mikið og fórnfúst starf af vísindafólki og öðrum áhugasömum félagsmönnum. Það var skemmtilegt að uppgötva hvað mörg járn voru í eldinum og eins hvað nefndaraðiliar fluttu sitt mál af mikilli einlægni og sannfæringu. Það er að sjálfsögðu okkur öllum hollt að fá aðhald og góðar ábendingar. Á sama hátt er okkur öllum mikilvægt að fá klapp á bakið og stuðning við það sem við erum að vinna hvar sem það er. Ég fann líka ekki annað en almenna sátt á fundinum við það sem verið er að gera. Eins get ég vel skilið að ekki sé verið að flytja fréttir oft á ári af þessum hlutum. Alla vega er margt af þessu sem þokast áfram jafnt og þétt margt sem þarf að íhuga og bera undir hina og þessa. Því ekki frá miklu að segja mánuði til mánaðar. Treysti því að út úr þessari vinnu allri komi góðir hlutir og verið kynntir vel.
Mikið hefur borist af fyrirspurnum um hvolpa til deildarinnar og vísum við þessum fyrirspurnum oftast á facebook og gjarnan á ræktendalistann, þ.e. ef ekki eru auglýst got á síðunni. Það er sérstaklega mikið spurt um Golden retriever og hefur verið mjög lítið framboð. Ég hvet ykkur ræktendur til að vera eins mikið sjáanleg og þið getið á hundasíðum. Svara svona fyrirspurnum af yfirvegun og jákvæðni og leiðbeina fólki sem frekast er unnt. Það vita það flestir sem eru virkir í starfinu að á bak við got eru ættbókarfærðir foreldrar sem hafa staðist heilsufarsskoðun og í mörgum tilfellum með sýningar og/eða veiðiprófsárangur. Það að kaupa hvolp sem er viðurkenndur og ættbókarfærður hjá HRFÍ gefur líka færi á að taka þátt í því starfi sem hefur verið lýst hér að hluta til. Eins er það í okkar hlutverki að taka vel á móti nýliðum og ræktendur ættu að fylgja sínum hvolpakaupendum áfram inní starf HRFÍ ef það er áhugi og kostur á.
Ég hlakka til sumarsins og ársins með ykkur og það yljar að vita af þessu öfluga fólki sem vinnur í deildinni, öflugum nefndum og öllu því fólki sem kemur að viðburðum okkar. Þá bæði sem þátttakendur og aðstoðarfólk.
Gerum 2019 að topp árið í aðsókn á viðburði og gerum nú sem fyrr allt sem við getum til að hvetja hvort annað áfram í því sem við erum að vinna með okkar hundum og sínum á okkur sparihliðarnar og ekki gleyma að taka einstaklega vel á móti öllum nýliðum í okkar sport og áhugamál, sýna þeim stuðning, jákvæðni og horfa á það sem vel er gert.
Með retriever kveðju,
Heiðar Sveinsson
Formaður Retrieverdeildar HRFÍ.