EIC – Exercise induced collapse
Hreyfióþoli í labrador retriever var fyrst lýst í dýralæknatímariti árið 1993 (Shelton 1993) en ein algengasta orsök fyrir hreyfióþoli hjá labrador retriever er erfðasjúkdómurinn Exercise-induced collapse eða EIC. Hundar sem þjást af EIC virðast að öllu leyti heilbrigðir í hvíld, einkenni koma hins vegar fram eftir 5-20 mínútna ákafa hreyfingu/þjálfun/æsing. Misjafnt er eftir einstaklingum hversu ákafa hreyfingu þarf til að hundur sýni einkenni. Þegar hundur með EIC nær sínum þolmörkum fer hundurinn að anda mjög hratt, hann hitnar mikið, missir mátt í afturfótum og fellur niður. Oft á tíðum reyna hundarnir að halda áfram og draga sig þá áfram á framfótum. Ef hundurinn er ekki stoppaður af getur lömunin náð til framfóta og haft áhrif á öndun og í sumum tilfellum valdið dauða. Hundarnir virðast ekki finna til á meðan á þessu stendur og ná sér eftir 15-30 mínútna hvíld. Rannsóknir hafa sýnt að líkamshiti hundanna hækkar á meðan á kasti stendur og getur umhverfishiti því haft töluvert að segja (Minor o.fl. 2011 og Taylor o.fl. 2008).
Að meðaltali á fyrsta kastið sér stað um 17 mánaða aldur (5 mánaða – 3 ára) eða um það leyti sem ákafi eykst í þjálfun, t.d. þeirra hunda sem þjálfa á til veiði. Rannsóknir hafa sýnt að um 15% hunda með EIC sýna aldrei einkenni, þá líklega vegna þess að þeir ná aldrei þeim ákafa í hreyfingu eða æsingi sem þarf til að koma af stað kasti hjá þeim (Minor o.fl. 2011).
Árið 2007 fannst stökkbreytta genið sem veldur einkennum EIC í hundum. Stökkbreytingin erfist víkjandi sem þýðir að báðir foreldrar verða að vera annað hvort berar eða með EIC til þess að líkur séu á að afkvæmi séu með sjúkdóminn. Í kjölfar þessarar uppgötvunar var DNA próf þróað til greiningar á stökkbreytingunni. Frekari rannsóknir hafa leitt í ljós að um 30% labrador hunda, hvort heldur sem er evrópskir eða amerískir, eru EIC berar og upp undir 3-5% eru með EIC (Minor o.fl. 2011). Í töflu 1 má sjá líkur á tíðni hvolpa sem ekki bera genið (hreinir), bera genið (berar) eða eru með EIC eftir því hvort foreldrar eru hreinir, berar eða með EIC.
Hjá retriever hundum er EIC algengast hjá labrador en kemur þó einnig fyrir hjá chesapeake bay retriever og curly coated retriever en þær tegundir virðast þó síður sýna lömunareinkenni. EIC þekkist hins vegar ekki hjá golden retriever, flat coated retriever og nova scotia duck tolling retriever. Stökkbreytingin er annað hvort ekki til staðar hjá þessum tegundum eða tíðni hennar mjög lág.
EIC á Íslandi
Engar rannsóknir hafa verið gerðar á tíðni EIC bera né tíðni hunda með EIC á Íslandi en ekkert bendir til þess að tíðnin sé lægri hér á landi en annars staðar. Dýralæknar hér á landi virðast ekki hafa yfirgripsmikla þekkingu á sjúkdómnum enn sem komið er og er því oft á tíðum erfitt að fá rétta greiningu, því má ætla að margir hundar fái seint eða aldrei rétta greiningu. Með aukinni þekkingu og fræðslu á sjúkdómnum ætti greining á EIC að ganga greiðar fyrir sig en verið hefur.
EIC er því miður veruleiki sem sumir labrador hundar búa við. Ekki síður hér á landi en annars staðar. Hér má sjá dæmi um labradortík sem ræktuð er hér á landi og glímir við EIC. Þetta er mikil skerðing á lífsgæðum hjá hundi af tegund sem ætluð er til veiða. Auðvelt er að koma í veg fyrir þennan veruleika með því að passa upp á að tveir EIC berar séu ekki paraðir saman.
Heimildir
Minor, K., Patterson, E., Keating, M., Gross, S., Ekenstedt, K., Taylor, S. og Mickelson, J.. 2011. Presence and impact of the exercise-induced collapse associated DNM1 mutation in Labrador retrievers and other breeds. 2011. Veterinary journal (London, England : 1997). 189. 214-9. 10.1016/j.tvjl.06.022.
Shelton GD. 1993. Exercise intolerance in dogs. Proceedings of the ACVIM Forum;11:888-891.
Taylor, S., Shmon, C., Shelton, D., Patterson, E., Minor, K. og Mickelson, J. 2008. Exercise-Induced Collapse of Labrador Retrievers: Survey Results and Preliminary Investigation of Heritability. Journal of the American Animal Hospital Association. 44. 295-301. 10.5326/0440295.