DM – Degenerative myelopathy
DM er taugahrörnunarsjúkdómur hjá hundum sem leggst á mænu og veldur hægfara lömun sem byrjar í afturfótum. Ekki er vitað með vissu hvað veldur sjúkdómnum en komið hefur í ljós að einstaklingar með stökkbreytingu í SOD-1 geni eru í aukinni hættu á að fá DM. Hundar sem erfa stökkbreytt gen frá báðum foreldrum eru í aukinni hættu á að fá sjúkdóminn en fá hann þó ekki endilega. Það er því ljóst að fleiri óþekktir þættir, erfða- og/eða umhverfisþættir þurfa að koma til til að sjúkdómurinn komi fram.
Hjá retriever hundum hefur sjúkdómurinn greinst hjá, golden retriever, nova scotia duck tolling retriever, chesapeake bay retriever og labrador retriever. Einkennin koma yfirleitt ekki fram fyrr en á efri árum eða að meðaltali í kringum 8 ára aldur.
Fyrstu einkenni
- Erfiðleikar við að standa upp.
- Máttleysi í afturfótum.
- Skert samhæfing
- Vöðvarýrnun
- Afturloppur kreppast þannig að hundurinn dregur tærnar, við það kemur gjarnan nuddsár ofan á tám og klær slitna óeðlilega.
Hálfu til einu ári eftir að fyrstu einkenni koma fram hafa flestir hundar misst máttinn í afturhluta líkamans og eiga erfiðara með að hafa stjórn á hægðum og þvagblöðru og í framhaldinu missa þeir smám saman mátt í fremri hluta líkamans sem endar með algerri lömun sem veldur m.a. öndunar- og kyngingarerfiðleikum. Hundar með DM virðast ekki vera verkjaðir en sjúkdómurinn dregur sjúklinginn til dauða á um það bil 3 árum. Í flestum tilfellum eru hundar þó svæfðir áður en til þess kemur.
Greining
Ekki er til fullnægjandi DNA próf til að greina DM. Það er einungis hægt að kanna hvort einstaklingur beri stökkbreytingu í SOD-1 geni frá báðum foreldrum og sé þá í aukinni hættu á að fá sjúkdóminn. Hins vegar er ekki hægt að segja til um það hvort þeir einstaklingar komi til með að fá sjúkdóminn. Örugga greiningu er einungis hægt að fá við krufningu en dýralæknar greina sjúkdóminn með því að útiloka aðra sjúkdóma með svipuð einkenni.
Engin lækning er til við DM og yfirleitt eru lífsgæði sjúklinga orðin það takmörkuð 6-18 mánuðum eftir að fyrstu einkenni koma fram að þeir eru svæfðir.
Heimildir
Melissa J. Lewis, Jeremy L. Shomper, Baye G. Williamson, Daniella P. Vansteenkiste, Katherine F. Bibi, Stefanie H. Y. Lim, Joseph B. Kowal, Joan R. Coates. Brain diffusion tensor imaging in dogs with degenerative myelopathy. 2021. Journal of Veterinary Internal Medicine. https://doi.org/10.1111/jvim.16248