Hugrenningar fyrir Ársfund

Kæru Retrieverfélagar,

Nú líður að ársfundi deildarinnar.  Núverandi stjórn deildarinnar tók við góðu búi í lok janúar 2019.

Deildin hefur átt frábært ár þar sem þátttaka í sýningum og á veiðiprófum er að vaxa til muna. Að auki var aðsókn að sýningarþjálfunum með mesta móti og síðan var staðið fyrir Veiði og vinnunámskeiði fyrir retriever hunda sem var mjög vel sótt og mikið innlegg í starfið.

Á þessu ári hafa nefndir deildarinnar komið að starfinu ásamt því að margt annað gott fólk kom að starfinu.  Veiðiprófsdómarar og þátttakendur í sýningum og á prófum hafa einnig komið að með krafti.

Deildarsýningin var enn ein skrautfjöðurin, þeir sem að henni stóðu eiga mikið hrós skilið og var frábært að fylgjast með þeim góða anda sem sveif þar yfir.

Nú er runnið upp 2020 og er það að mörgu leiti áhugavert ár.  Ártalið eitt og sér er skemmtilegt og ekki skemmir að stofnár deildarinnar okkar er 1980 og á hún því 40 ára afmæli á þessu ári.

Dagskrá deildarinnar hefur verið samþykkt af stjórn HRFÍ og eins hefur verið samþykkt að deildin má halda Deildarsýningu og verður hún haldin 26.september n.k. á sama stað og síðast.

Nú er komið að ársfundi og þá verður eðli málsins samkvæmt oft uppstokkun á stjórnar og nefndarstörfum.  Einhverjir vilja draga sig út og aðrir þurfa þá að koma inn. 

Tvö stjórnarsæti eru laus samkvæmt reglum um ræktunardeildir og eru það sæti Sigrúnar Guðlaugardóttur og Unnar Olgu Ingvarsdóttur.  Sigrún gefur ekki kost á sér áfram en Unnur ætlar að gefa kost á sér.  Ég hvet ykkur kæru félagar til að íhuga vel hvort þið eigið ekki samleið með okkur hinum í stjórn þessa skemmtilega félagsskapar og vera með þeim hætti beinir þátttakendur í starfinu.

Síðan eru það nefndirnar.  Það má finna góðar upplýsingar um nefndarfólk á heimsíðu deildarinnar undir „Deildin“ .  Það er eins með nefndir að þar vilja einhverjir losna og það er alltaf þörf á góðu fólki.  Sýningarnefnd er spennt fyrir afmælisári og má finna að það er áhugi á að gera eitthvað sérstak, upplagt fyrir áhugasaman að hefja sína vegferð með krafti. Veiðinefnd hefur sett fram metnaðarfulla dagskrá og þar er alltaf þörf á áhugasömum aðilum.  Básanefnd er eitthvað sem er nauðsynlegt að fá aðila inni þar sem Sigrún sem hefur starfað þar er að hætta eftir mjög mörg ár.  (mun samt örugglega vera til halds og trausts)

Kæru félagar eftir þó nokkur ár í starfi fyrir deildina okkar er ég vongóður um að þið lítið í eigin barm og bjóðið krafta ykkar fram nú sem fyrr í starf deildarinnar.  Ég vona svo sannarlega að þið gerið það með ákveðnum hætti og sendið á retriever@retriever.is hvar þið óskið eftir að stíga inn.  Nú eða sendið okkur línu á facebook.

Ársskýrsla deildarinnar fer inná vefinn á næstu dögum og svo vona ég að við sjáum ykkur sem flest á miðvikudaginn í Síðumúla 15 kl.20.00.

Fyrir hönd stjórnar Retrieverdeildar HRFÍ,

Heiðar Sveinsson

Formaður